Laufey

LAUFEY STEINDÓRSDÓTTIR

Ég er móðir þriggja dætra og hjúkrunarfræðingur að mennt. Árið 2013 var
viðburðarríkt ár í mínu lífi því þá tók ég þá afdrifaríku ákvörðun að segja upp
starfi mínu á Landspítalanum og fara í innra ferðalag. Þá hófst hin mikla leit að
sjálfri mér og mínum sanna tilgangi. Áhugi minn á heilsusamlegum og grænum
lífsstíl varð til þess að ég hóf nám í Heilsumeistaraskólanum og eignaðist ég þar
yndislega vinkonu sem kynnti mig fyrir jóga í Yoga Shala. Ég fór í minn fyrsta
Vinyasa tíma hjá Ingibjörgu Stefánsdóttur árið 2014 og það var mikið gæfuspor á
minni vegferð. Upplifunin var einstök og hefur jóga, hugleiðsla og djúpslökun
fært mér meira jafnvægi og vellíðan. Jógaástundun mín hefur aukist jafnt og þétt
og hefur líkamlegur og andlegur styrkur aukist til muna ásamt betri einbeitingu

og úthaldi.


Í lok árs 2016 útskrifaðist ég sem Yoga Nidra kennari frá Amrit Yoga Institute
sem er viðurkennt nám af Yoga Alliance. Ég kenni Amrit Method of Yoga Nidra
sem er liggjandi, leidd hugleiðsla og djúpslökun. Aðferðin fær okkur til að kyrra
hugann, tengjast inn á við og sleppa tökunum. Sem stendur er ég í
jógakennaranámi í Yoga Shala og mun útskrifast með 200 tíma Yoga Alliance
réttindi í lok september 2017. Ég hef einnig sótt ýmis námskeið og workshop
sem öll hafa styrkt mína jógaástundun og veitt mér mikinn innblástur. Má þar
nefna Lucas Rockwood og Mark Robberds.

Sem hjúkrunarfræðingur hef ég komið víða við á Landspítalanum og aðallega
unnið við bráða- og gjörgæsluhjúkrun. Einnig hef ég starfað og lært við
Karolinska sjúkrahúsið í Stokkhólmi. Í gegnum starf mitt við hjúkrun hef ég séð
hvernig streita og lífstíll getur haft neikvæð áhrif á bæði andlega og líkamlega
heilsu. Ég er þess fullviss að jóga í hvaða formi sem er geti stuðlað að meiri
vellíðan og haft heilsufarslegan ávinning í för með sér. Ég á þann draum að sjá
jóga, hugleiðslu og djúpslökun í meiri mæli inní heilbrigðiskerfi framtíðarinnar.
Vonandi mun sá draumur rætast.


True service, done with love is self-fulfilling
(Yogi Amrit Desai).



Share by: