Tómas

TÓMAS ODDUR EIRÍKSSON

Ég er fæddur árið 1988 og að Íslandi undanskildu hef ég búið í Bandaríkjunum, Bretlandi og Perú. Mitt yoga ferðalag hófst við árið 2005 þegar vinkona mín bauð mér heim til sín í yoga á stofugólfinu eftir leiðbeiningum kennara á skjánum. Fræinu hafði verði sáð en nokkur ár áttu eftir að líða þar til ég hóf að stunda yoga af alvöru.

Vorið 2010 uppgötvaði ég svo Ashtanga Vinyasa yoga hjá Ingibjörgu Stefánsdóttur í Yoga Shala. Það leið ekki langur tími þar til ég var farinn að mæta reglulega í tíma og fyrr en varði var ég kominn í kennaranám.

Ég hef verið svo lánssamur að læra af öðrum kennurum eins og Anouk Petzoldot, Lawino María Johnson, Julie Martin, Ryan C. Leir, Elena Mironov, Alexander Medin og Aarona Pichinson. Hefur það mest verið í tengslum við 200 klst. yogakennaranámið sem ég lauk hjá Ingibjörgu Stefáns vorið 2012 í Yoga Shala.

Auk yoga hef ég sótt fjölmörg námskeið og vinnustofur í gegnum tíðina sem tengjast leiðtogafærni, samskiptum, dansi, leiklist og söng. Má þar nefna Stúdentaleikhúsið, Spiral Dansflokkinn og sumarnámskeið í The Guildhall School of Music and Drama í London. Þá stofnaði ég leikfélagið Verðandi í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ og átti stóran þátt í að þar var síðar stofnuð Leiklistabraut, fyrsta sinnar tegunar í framhaldsskólum á Íslandi.

Hafandi mikla ástríðu fyrir tjáningu, tónlist og dansi fór ég af stað með mína eigin tíma í febrúar 2014 sem ég kalla “Yoga Moves”. Þar vinn ég með tónlistarfólki, plötusnúðum og öðrum yoga kennurum og í sameiningu sköpum við upplífgandi samverur með tónlist, yoga, dansi og hugleiðslu. Þessir tímar fara fram vikulega á Dansverkstæðinu og hafa notið talsverðra vinsælda og eftirtektar. Þá hef ég haldið stærri Yoga Moves viðburði í Hörpu, Gamla Bíó, Hofi Akureyri og Verboten Klúbb í New York.

Árið 2015 lauk ég framhaldskennararéttindum í “Vinyasa Flow Yoga” (500 klst RYT – Level 2) frá Brahmani Yoga skóla á Indlandi hjá Julie Martin og Emil Wendel. Þess má geta að sama ár útskrifaðist ég einnig með BSc próf í Mannvistarlandfræði frá Háskóla Íslands.

Ég hef verið þess heiðurs aðnjótandi að kenna yoga og hugleiðslu hjá Yoga Shala, Íslenska Dansflokknum, Dansverkstæðinu, Listaháskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík og Kramhúsinu svo eitthvað sé nefnt. Þá hef ég reglulega tekið að mér einkatíma, heimsótt vinnustaði, skóla og hátíðir. Ég hef einnig tekið þátt í að leiða kennaranám. Í lok árs 2016 steig ég svo inn með meðeigandi Yoga Shala Reykjavík og var það til loka árs 2022. Ég tók því virkan þátt í að byggja upp nýju stöðina í Skeifunni 7. Ég er afar þakklátur fyrir það tækifæri og þá dýrmætu reynslu.

Ég vil mæta hverjum og einum þar sem hann/hún er og stuðla að jákvæðum breytingum á líkama og sál. Ég legg áherslu á að iðkendur auki vitund sína og skilning á hinni líkamlegu tilveru og komist í dýpra samband við sinn tæra kjarna. Iðkunin er í mínum huga alhliða efling á öllum víddum mannlegs veruleika og snýst um að koma heim, heim að hinum sanna kjarna. Ég er óendanlega þakklátur fyrir að fá að iðka og kenna þá mögnuðu aðferðarfræði sem yoga er. Það er mín einlæga trú að yoga geti gert heim mannsins að betri og friðsamari stað, því við erum jú að mestu, skaparar okkar veruleika. Yoga hefur kennt mér að lifa frá hjartanu og með hjartanu vil ég kenna.

Tek að mér einkatíma í yoga. Hafðu samband til að bóka tíma: tomas@yogashala.is

Share by: